Haustið 2000 var ég í hlutastarfi sem prófarkalesari á The Baltic Times í R?ga.
Einn daginn á rölti um bæinn mætti ég kollega sem var á leið að sækja blaðamannapassa á kvikmyndahátíð. Ég rölti með og á leiðinni náði hún að magna upp í mér púka.
Þegar við komum á staðinn laug ég því blákalt að aðstandendum kvikmyndahátíðarinnar Arsen?ls að ég væri frílans blaðamaður og að mig langaði mikið að skrifa grein um hátíðina í Moggann. Þau gleyptu við þessu og létu mig fá frípassa.
Ég sá 36 myndir á 8 dögum. Þar af 25-30 myndir í fullri lengd:
- Friðrik Þór sat fyrir svörum eftir Engla alheimsins og sagði öllum að á Íslandi væri hún álitin grínmynd.
- Það hafði ekki gefist tími til að texta Dancer in the dark, svo aftast vinstra megin í salnum sat miðaldra maður við lítið borð með lampa og las þýðinguna jafnharðan í hljóðnema.
- Ég sá Audition eftir Takashi Miike. Ég hafði aðeins misskilið lýsinguna í prógramminu og var engan veginn undir þetta búinn. Aleinn í bíó, kom svo út eftir miðnætti í kolniðamyrkur, og það var dágóður spotti heim. En semsagt já, ég svaf ekki mikið næstu daga, og mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds meðan ég skrifa þetta.
Nema hvað, ég sá 36 myndir á 8 dögum. Tveimur dögum síðar var ég á kvöldvakt á blaðinu meðan starfsfólkið reyndi að fylla upp í síðustu dálksentimetrana svo hægt væri að senda blaðið í prentun. Ég fékk krampa í hálsinn vegna vöðvabólgu og vinnufélagarnir hringdu á sjúkrabíl sem flutti mig á Gai?ezers Slimn?ca (Svanavatns sjúkrahúsið).
Þar lá ég í 3 daga með aðeins þennan farangur:
- Stílabók og penna.
- Nýjasta tölublað Baltic Times (sem ég hafði jú prófarkalesið af kostgæfni).
- Eitt tölublað af The Economist.
- Nokia 3110 með tvö strik, en ekkert hleðslutæki.
Þegar hjúkrunarfræðingarnir komu að gefa mér lyf í æð reyndi ég á minni takmörkuðu lettnesku að spyrja hvað væri í gangi og það sem ég skildi var „meðal“ og „ekki illt“.
Ég lá þarna uppi á áttundu hæð í þrjá daga, las Economist tólf sinnum, lúslas Baltic Times í leit að innsláttarvillum sem mér hefðu yfirsést, sendi svona 74 SMS, skrifaði háfleygar langlokur í stílabókina um hvað ég ætti ógurlega bágt og starði dreymandi út um gluggann.
Við útskrift þremur dögum síðar fékk ég umslag sem innihélt röntgenmyndir af hálsinum, bréf um allt sem læknarnir höfðu gert (á lettnesku), óráðna greiningu og reikning upp á 59,78 LVL (samsvarar á að giska 25.875 ISK framreiknað). Ég fékk líka forláta hálskraga sem ég átti í mörg ár (og þurfti því miður að nota nokkrum sinnum).
Tl;dr: Ég laug til að fá frípassa á kvikmyndahátíð og fór svo mikið í bíó að ég endaði á spítala í þrjá daga með GSM síma með tvö strik. Life lesson. Karma is a bitch. Stolnar piparkökur eru vondar. O.s.frv.