hreiður

Ég er ekki í vondu skapi. Ég hef milljón ástæður fyrir því að vera í vondu skapi, en ég er það ekki. Mig bara langar ekki til þess.

Í síðasta mánuði missti ég vinnuna, húsnæðið og kærustuna, svo núna er ég atvinnulaus, bý hjá pabba og mömmu, og á enga konu lengur. Þetta eru þrjár góðar ástæður fyrir því að vera fúll. Vinur minn sagði í gær að það væri eins og ég ætti heima í kántrílagi eða eitthvað, nema að ég missti ekki bíl. En ég bara nenni ekki að fara í fýlu.

Núna er ég líka búinn að fá nýja vinnu sem ég byrja í á mánudaginn, er byrjaður að leita mér að nýrri íbúð, og hvað nýja konu varðar, þá er ég myndarlegur og svaka skemmtilegur. Ég á fullt af vinum og vinkonum sem finnst rosa gaman að hitta mig. Í alvöru.

Og þegar ég verð búinn að finna mér nýja íbúð ætla ég að bjóða öllum sem ég þekki í heimsókn. Og alltaf þegar þeir koma þá fá þeir sér bara kaffi án þess að ég þurfi að segja “Viltu kaffi?” og hella bara upp á sjálfir ef það er ekki til og svona. Það þarf ekki að spyrja mig hvort má pissa í klósettið, og ef húsið hjá fólki brennur eða eitthvað þá á ég rósóttan klikk-klakk sófa úr Ikea og breyti bara stofunni minni í gestaherbergi.

Svo ætla ég að kaupa mér ógeðslega flotta tölvu, eignast milljón pennavini á netinu og reyna við stelpur á irkinu og svoleiðis. Ég ætla að kunna ógeðslega mikið á tölvur og senda öllum myndir af mér og tala við þá um bestu heimasíðurnar og bandvídd. Ég verð svona tölvugúbbi sem gleymir hvernig sími virkar, tala bara við fólk með lyklaborðinu og sona.

Kærastan mín átti sjónvarpið, svo ég get ekkert horft á sjónvarp. En það skiptir engu. Ég verð hvort sem er allan tímann að tala við alla vinina sem eru í heimsókn og klæmast við stelpur á irkinu, svo það skiptir engu máli. Það er aldrei neitt skemmtilegt í sjónvarpinu hvort eð er. Ég á líka vídeó, og ef það kemur óvart eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu, þá læt ég bara vídeóið horfa fyrir mig.

Svo ætla ég til vara, þú veist ef allir vinir mínir verða veikir og tölvan bilar, að vera með páfagauk. Þá hef ég alltaf einhvern til að tala við. Mig langar eiginlega meira í skjaldböku, en það er bara svo rosalega erfitt að fá skjaldbökur, það er nefnilega bannað að flytja þær inn. Ég er ekki alveg viss, en ég held þær séu flokkaðar með pöddum í tollinum.

Þess vegna er ég búinn að ákveða að fá mér páfagauk af því að ég fæ ábyggilega hvergi skjaldböku. Ég ætla að kaupa lítinn páfagauk, svona páfagaukabarn, svo ég missi ekki af neinu í uppeldinu, og geti mótað persónuleikann sjálfur. Hann heilsar mér alltaf þegar ég kem heim, og talar við mig. Náttúrulega talar hann ekki mannamál, en hann svarar mér með því að skríkja þegar ég segi eitthvað við hann og þannig, svona eins og hann skilji mig, og ég skilji hann.

Ég ætla að kenna honum fullt af ósiðum. Hann verður rosa mikið laus; flýgur um allt og sest á öxlina á manni. Hann kemur og sest á borðið þegar ég er að borða og borðar af diskinum mínum og ég segi honum sögu sem honum finnst svaka sniðug. Svo vill hann alltaf fá sopa af appelsíninu hjá mér, og ég þarf að halla glasinu, og hann sest á brúnina og teygir sig niður í glasið og drekkur. Stundum dettur hann ofaní glasið og brjálast af hræðslu og heldur að hann sé að drukkna, en ég bjarga honum uppúr á síðustu stundu og það treystir samband okkar enn frekar, og við verðum rosalega góðir vinir.

Það sagði mér einhver að ef páfagaukar fái að fljúga lausir fari þeir oft í bókahillur, setjist á bækurnar og narti í þær og geri dodo. Páfagaukurinn minn ætlar ekki að gera það, nema við nokkrar bækur sem eru ekkert voða skemmtilegar. Hann fær eina hillu bara fyrir sig með leiðinlegum bókum sem hann má kúka á.

Páfagaukurinn minn á að vera kona, eða ég ætla allavega að segja að hann sé kona, af því að þá get ég stundum sagt að kona bíði heima þegar ég ætla að vera sniðugur. Það býttar sosum engu hvort það er kall, afþví að það er ekki nokkur leið að þekkja þau í sundur. Ef ég vil breyta til segi ég að ég sé í sambúð. Hún á að heita Hulda. Þá get ég sagt að ég sé í sambúð með henni Huldu, og allir halda að ég sé svaka kaldur kall sem er ekki bara á föstu, heldur í sambúð.

Svo um helgar held ég partý og fer á fyllerí. Býð öllum vinunum mínum og skemmti mér rosalega vel. Ég geng milli öskubakka með oggulítið slökkvitæki og sprauta úr því á sígaretturnar sem er ekki alveg dautt í, og skamma fólk fyrir að gubba ekki í klósettið. Ég er hrókur alls fagnaðar og kemst næstum alltaf á séns og svoleiðis, og þá kemur sér sko vel að eiga gott hreiður til að fara með gellurnar í.

Comments

Leave a Reply