glefsa úr lífi

[aths. ritstj: eftir mikla reikistefnu, margítrekaðar frestanir (og ýmislegt fleira miður fagurt á útgáfu þessarri) var ákveðið að ýta þessum annál loks úr vör með löngu tímabærri skýrslu einni, er rituð var í kjölfar tilraunar sem óvart átti sér stað á þeim mikla merkisdegi 28.11., þrátt fyrir að það bjóði upp á þann misskilning að héðan í frá verði allar glefsur hávísindalegar skýrslur er lýsa í smáatriðum skarplegum athugunum skýrsluhöfundar. nú verður tækifærið notað og misskilningurinn leiðréttur fyrirfram: þannig verður þessu ekki farið. þetta verður vettvangur fyrir skarplegar athuganir og skýrar og vel ígrundaðar skoðanir frá sm, settar í hvert það form er lundin býður hverju sinni]

heiti tilraunar

rúverðugleiki sjónvarpsauglýsinga sannreyndur, drög. (nb: Enn er aðeins um bráðabirgðaútgáfu að ræða)

tilgangur

að láta reyna á staðhæfingar sem fram eru bornar í sniðugri sjónvarpsauglýsingu, og komast þannig að því hvort sjónvarpsauglýsingum er treystandi eður ei

efni & áhöld

vatn, talsvert magn (ferskt, beint úr krana); uppþvottagrind, 1 stk. (forláta, úr við); pappírsþurrka, 1 pj. (af bounty-gerð); ávaxtasaft, 7,74 ml. (heimalöguð); heimahús, 1 stk. (kjallaraíbúð, m/ grænmálaðri stofu og bilaðri dyrabjöllu); newcastle brown ale svaladrykkur (í þartilgerðu íláti); vaskur (dæmigerður, úr stáli) & gólf (með parket-gólfefni). [aths. ritstj: ekki sakar að hafa við höndina 1 stk. finna; 1 hollending; eina af svissnesku bergi brotna og gefna fyrir hesta; ca. 1 dana; og íslendinga eftir smekk, þó því fari fjarri að framantaldir séu nauðsynlegir. þeir eru til þess eins ætlaðir að stytta manni stundir við biðina]

dags.

28. 11. 1998 – ?

tilreynandi

siggimus.

sérlegur aðstoðarmaður

jón aðalsteinn

athugasemd

hvorki menn né málleysingjar hlutu varanlegan skaða af þátttöku í tilraun þessari

dagur 1

var gæsin gripin fastum tökum er hún gafst, í fjölþjóðlegum gleðskap í heimahúsum. kl. 23.17 rataði heimalöguð berjasaft úr glasi eins gleðskaparans óboðin niður á parketgólf nefndra heimahúsa. þetta ástand var að sjálfsögðu illa við unandi, en það lán vildi til í öllu þessu ólukkans óláni að skömmu áður hafði heimilishaldinu borist að rausnarlegri gjöf sýnishorn af pappírsþurrkum af bounty-gerð (hér eftir “pappírsþurrka”), en heimilishaldendur eru nafnlausum gefanda að sjálfsögðu eilíflega þakklátir fyrir verknaðinn, enda var sýnishorn þetta hið fjölbreytilegasta, sem dæmi má nefna nokkrar pjötlur, hvítar að lit, án mynda, en mynstraðar einsog býflugnabú, bæði í stórum pjötlum og litlum, og síðast en ekki síst hin vinsæla tegund er ber ýmsar myndir, einnig mynstruð eins og býflugnabú. er óhappið varð var pappírsþurrka sótt til í snarhasti, og varð skiljanlega fyrir valinu pjatla með mynd af böngsum við dagleg störf, og henni beitt samkvæmt leiðbeiningum á rauðleitan blettinn. gekk það allt að óskum, og hreinlega eins og best var á kosið. [aths. ritstj: því má lauma hér að að hrifning viðstaddra af atburðinum er þau urðu þar vitni að, varð eiginleg kveikja að tilrauninni.] í ánægju sinni með frammistöðu pappírsþurrkunnar, ákváðu viðstaddir að fremja próf og láta á það reyna hversu staðhæfingarnar sem fram er haldið í auglýsingunum fengju staðist. í einmitt þessu augnamiði var skrúfað frá til þess gerðum krana sem er haganlega staðsettur við eldhúsvaskinn, svo úr rynni vatn á vægum styrk, á bilinu 8-10°C að hitastigi, ofan í vaskinn. var pappírsþurrkunni stungið undir bununa, og látin dveljast þar í nálega 4 sekúndur, svo að á eftir var hún vel blaut. umsjónarmaður tilraunarinnar tók um pappírsþurrkuna á öllum réttum stöðum og mundaði að aðstoðarmanni sínum, er kom aðvífandi með svaladrykk af tegundinni newcastle brown ale, nær 197 ml. að magni, staðsett í upprunalegu íláti. þvínæst var svaladrykknum, í umbúðum, dembt í offorsi á pappírsþurrkuna miðja við hveljusop viðstaddra. til að gera skamma sögu stutta má segja frá því að pappírsþurrkan stóðst atlöguna með stakri prýði, og sýndi hvergi veikleikamerki. allar efasemdaraddir þögnuðu snarlega, og upphófst samstundis lofræða mikil

svo ánægður var tilreynandi með frammistöðu pappírsþurrkunnar rómuðu að ákveðið var að ganga skrefi lengra og leggja fyrir pappírsþurrkuna próf sem enginn viðstaddra kannaðist við að auglýsingarnar hefðu lofað að hún stæðist. þurrkan var snarlega lögð til þerris á forláta uppþvottagrind er hefur búið sér heimili í hentugri fjarlægð frá eldhúsvaskinum er fyrr um getur. var nú uppþvottagrindin látin um það að þerra pappírsþurrkuna með dyggri aðstoð stofuhita, en tilreynendur sneru sér aftur að því að sjá til þess að berjasaft sem og aðrir svalandi drykkir rötuðu annað en á parket-gólfið

[aths. ritstj: hér ber mér að geta þess að ekki gátu allir setið á honum stóra sínum, og laumuðust, er ferð gafst, til þess að fylgjast með framgangi mála. þorir ritstjóri næstum að ábyrgjast að þetta hafi lítil sem engin áhrif haft á tilraunina, enda dvaldist þurrkunni ekki lengi á krukkunni með myglaða piklesinu (nánar verður greint frá þeirri tilraun síðar), þar sem henni var komið fyrir til að forða gestum og gangandi frá því að innbyrða tilraunina í ölæði]

dagur 2

sökum ókennilegs krankleika tilreynanda gáfust uppþvottagrindinni og stofuhitanum lengri tími en ella til að þerra af alkunnri natni pappírsþurrkuna góðu. þegar heilsa loks leyfði eftirgrennslan, eftir kúr mikinn sem samanstóð af 5 klst. af sjónvarpi (+, ásamt með 23 vindlingum (% og dreitli af svaladrykk (`, gaf að líta pappírsþurrkuna, sem nýja. það skal þó reyndar viðurkennast að í henni er nú að finna krumpu eða tvær, en ekki er hún til mikilla lýta. eflaust má líka losna við hana með lítilli fyrirhöfn, sé við höndina straujárn, 150°c heitt

niðurstöður (bráðabirgða)

sjónvarpsauglýsingum er ekki að öllu leyti treystandi. fyrir kemur að ekki er sagður allur sannleikurinn

[aths. ritstj: lýkur nú skýrslunni að sinni, og hverfum við frá tilreynanda þar sem hann bíður eftirvæntingarfullur í ofvæni eftir því að aftur sullist svaladrykkur eða jafnvel eitthvað annað drykkjarkyns á parket-gólfið, svo að tilraunin megi halda áfram, en næsta skref er að rannsaka hvort rakadrægni pappírsþurrkunnar hafi orðið fyrir skakkaföllum við atganginn er fylgdi endurvinnslu hennar. meira um það síðar. lysthafendum er boðið að líta við og berja þurrkuna, sem er til sýnis fyrir lítið, augum í eigin persónu, en til að forðast yfirdrifinn atgang, er þess vinsamlegast farið á leit að viðkomandi panti tíma í síma]

góðar stundir,
-sm

fótnótur

+)

kappleikur íslendinga við eitthvert erlent fólk [hluti] (*1/2)
kvikmyndin “sagan af hiawatha” (***)
nýjasta tækni og vísindi (**)
táknmálsfréttir (**1/2)
stundin okkar (*1/2)
víetnam [hluti]
geimferðin (***)
ljóð vikunnar (**&**1/2)
fréttir (*), íþróttir 1/2 og veður [hluti]

%)

marlboro, mjúkur pakki (***)

`)

fresca (**1/2)

Comments

Leave a Reply