glefsa úr lífi ofsótts manns

þó siggimus hafi nýverið tekist á hendur ferðalag allmikið og spennandi (best) fær saga þess að bíða framköllunar ljósmynda, og verða herlegheitin síðar meir gerð lýðum ljós á vef siggamus ef guðir og gæfur lofa og siggamusi endist aldur til. segir siggimus og skrifar ef, því siggimus hef orðið vissar grunsemdir um að hugur ákveðinna guða sé helstil illu blandinn í siggamuss garð. raunir undanfarinna daga geta ekki verið af öðrum toga sprottnar. siggimus er leiksoppur einn, græni bíllinn í matadori guðanna. fylgja þessu til staðfestingar tvær frásagnir úr lífi siggamuss, og hugleiðingar útfrá þeim.

1. ertu alveg sikker að þú heitir ekki kristján?

síminn siggamuss hringir, og karlmannsrödd biður á útlensku um christian. Af einlægri greiðasemi tjáir siggimus manninum á hans eigin sproki að slíkur búi enginn í þessu númeri, enda veit siggimus ekki betur. viðmælandinn bregst ókvæða við og vill síður en svo una þessari minni niðurstöðu.

“ertu viss?” spyr hann [samtalið hefir til hægðarauka verið þýtt á íslensku].

“nokkuð,” svarar siggimus ákveðið, en þó án nokkurs hroka.

“er hann ekki sonur þinn?” spyr þá kauði. siggimus reynir að gera manninum grein fyrir því að siggimus hefði að öllum líkindum orðið þess var ef siggimus ætti son sem héti christian, sér í lagi byggi hann á sama heimili og siggimus.

“hvað heitir þú?” líklega vonar hann að siggimus komi upp um siggamus og gangist við því að heita eftir allt saman kristján.

“siggimus,” honum verður ekki kápan úr því klæðinu.

“ekki christian?”

“ekki einu sinni pínu,” segir siggimus, tekinn að lýjast, en heldur þó uppi hetjulegum vörnum.

“hvaða símanúmer er þetta?” maðurinn treystir siggamusi engan veginn og telur siggamus augljóslega fara með lygimál.

“5511179” svarar siggimus, samkvæmt bestu vitund.

“já, það er einmitt númerið sem christian lét mig fá til að hringja í.”

“jæja?”

“af hverju lét hann mig fá þetta símanúmer ef hann er ekki þarna?”

hann ætlar að taka siggamus á sálfræðinni. á endanum mun siggimus láta bugast og þekkja téðan kristján, eða það sem betra er, vera téður kristján.

“?”

“hvar áttu heima?” hnýsnin við það að verða ósæmileg.

“þorfinnsgötu 2,” svarar siggimus, enn samkvæmt sannfæringu sinni.

“já, hann býr einmitt á þorfinnsgötu 4!”

“sko minn kall.”

“er þetta ekki beint á móti spítalanum?”

“beint og ekki beint,” svarar siggimus.

“jújú, þetta er beint á móti spítalanum,” leiðréttir sá erlendi siggamus.

“já?”

“já, þetta er rétt hjá spítalanum! þekkirðu ekki christian?” hann skal sannfæra siggamus.

“nei, það gerir siggimus nú reyndar ekki.”

“þekkirðu ekki nágranna þinn?”

“nei.”

“þekkirðu ekki nágranna þinn?”

“ekkert betur nú en siggimus gerði fyrir þremur sekúndum.”

“ja hérna!”

“jæja, já.”

“en af hverju er christian að láta mig fá númerið hjá nágranna sínum ef hann þekkir þig ekki?” hann reynir að hanka siggamus á rökvillu. því miður fyrir erlendan er rökvillan kristjáns en ekki siggamuss.

siggimus lætur vera að vísa spurningunni áfram til þeirra sérfræðinga sem siggimus hefur grunaða um að hafa kristján til reglulegrar meðferðar, en svarar með ofbeldishneigðri þögn.

siggimus er að því kominn að bjóða manninum að leita kristjáns inni í skápum og undir rúmi ef hann vill hinkra á meðan, þegar erlendur kveður við,

“heyrðu, ég prófa kannski bara að hringja í síma 5511179. kannski er christian þar?”

“ábyggilega,” segir siggimus og hættir við að brenna ofan af mögulegum kristjáni á nr. 4 kofann, í bili.

2. eiríkur

síminn hringir. siggimus svarar. í símanum er karlmannsrödd, eigandinn líkast til á aldrinum 40-50 ára.

“er eiríkur við?”

“nei, hann er úti í fjósi.”

“já?” ekki vottar fyrir undrun eða neinu því í tóni mannsins sem gefur til kynna annað en að eiríkur eigi fullt erindi í fjósið.

“já, hann er að mjólka kúna.”

“jæja, veistu hvenær hann kemur aftur?” hvað ætti eiríkur sosum að vilja í fjósið annað en að mjólka kúna?

siggimus gefst upp við svo búið, veifar hvítu flaggi, tilkynnir dónanum á að hann hafi fengið samband við rangt númer og biður hann allra náðarsamlegast að yfirgefa línuna hið snarasta. vill siggimus ekkert hafa við svona svín að skipta. siggamussins perlur eru ætlaðar æðri lífverum.

3. hugleiðingar

er tólið var aftur lent á símanum lögðu af stað eftirfarandi hugleiðingar: hvað er að verða um heiminn þegar jafnsjálfsagður hlutur mannlegra samskipta og það að átta sig á og gangast við því ef pissað er á mann er að engu hafður? að vinna einhvern sem ekki aðeins áttar sig ekki á því að hann hafi skíttapað, heldur það sem verra er og svíður sárast; gerir sér ekki einusinni grein fyrir því að keppni hafi átt sér stað, er álíka mikið afrek og að móðga gúrku, eða að vinna brauðrist í þrætum. það er ekki hægt að vinna nema einhver tapi. gúrkur, brauðristar og fífl kunna ekki að tapa.

þessar hugleiðingar og fleiri áttu hug siggamuss allan næstu mínúturnar, þartil siggimus sá samhengið. í lífi siggamuss síðan siggimus sneri aftur frá praha, þar sem siggimus hafði tekið þátt í tilraun til að reisa babelsturn, var ákveðið munstur: fólk hringdi í siggamus og bað um kristjána sem siggimus átti ekki til, og þrætti við siggamus um hvort siggimus ætti þá til eða þekkti. fólk hringdi og bað um eiríka, og tók ekki eftir því ef siggimus hæddi það og spottaði af örgustu gargandi snilld. einnig ber þess að geta að hingað hefur um hríð borist afgangspóstur sá er íslandspóstur hf. losnar ekki við eftir öðrum leiðum. pósti hinna ýmsustu þorbjarna, sigurhjalta, guðjóna sem og sigrúna sem bréfberum hefur ekki tekist að hafa uppi á eftir öðrum leiðum virðist ekið hingað með lastbílum og hann skilinn eftir á þröskuldi vorum, oss til mikillar armæðu.

4. mórall?

þarf fleiri vitnanna við? þetta er allt á sömu bókina lært, og bókin sú fjallar ekki um tilviljanir, heldur ofsóknir. gamansamir guðirnir eru teknir að spila með undirritaðan og hafa hann í flimtingum; siggimus er hattur í lúdói æðri máttarvalda, og örlög hans þau ein að bíða næsta kasts teninganna. látið þetta ykkur að kenningu verða. guðirnir hafa aldrei liðið dramb og hroka meðal dauðlegra. því biður siggimus ykkur: ekki smíða vængi, setja á bakið á ykkur og reyna að fljúga til guðanna. ekki smíða tröppu upp til himna. ekki reyna að skapa líf úr lífleysu. ekki ætla ykkur guði, og síðast en alls ekki síst; aldrei reyna að drekka 50 bjóra í einni lotu.

-siggimus

ps:

just because i’m paranoid, it doesn’t mean they’re not out to get me

Comments

Leave a Reply