Ég fór til Salou í Katalóníu í viku að fylgja Söndru á fótboltamót. Mitt hlutverk var að vera innan seilingar og koma hlaupandi ef hún hringdi og bæði um knús.
Geggjað, hugsið þið eflaust! En vandamálið er að ég er ekki búinn til fyrir mikla sól eða hita og kann ekkert að vera á svona stöðum; veit ekkert hvað á að gera. Svo ég labbaði. Og labbaði. Svo labbaði ég aðeins meira. Svo fékk ég leið á að labba og leigði hjól. Og ég hjólaði. Svo þegar ég ætlaði að hjóla smá meira var ég orðinn ansi lúinn og leigði rafhjól og hélt áfram að hjóla.
Og gleymdi að bera reglulega á mig sólarvörn. Ég hélt út í 5 daga. Sólbrann ekki að ráði fyrr en á fimmta degi – á hjólinu.
Þegar ég var ekki að labba sat ég og hvíldi lúin bein á bekkjum í skugga, svitnaði og starði á fólk labba hjá, þambaði vatn í lítravís og stóð svo upp með erfiðismunum og fyrstu 20-30 skrefin kjagaði ég eins og ég væri að læra að ganga á ný eftir mjaðmaskiptaaðgerð.
Einn daginn vaknaði ég klukkan hálf sex til að taka lest til Barcelona, labba 25 kílómetra í 29°C, verkja í fæturna, drekka þrjá lítra af vatni og skoða flott hús eftir Gaudí.
Ó já, eins og ég átti von á gekk Söndru bara vel og þurfti lítið á mér að halda. Það gekk ýmislegt á, eins og gefur að skilja með stóran hóp af 12-14 ára stelpum, en hún plumaði sig bara vel, bæði innan vallar sem utan. Afturelding var með 2 lið á mótinu og liðinu sem Sandra var í gekk ekki sem best en aðalliðinu gekk öllu betur. Það var auðvitað erfitt að díla við tapleiki – sérstaklega tvo leiki þar sem liðið var mjög óheppið að vinna ekki – en ferðin frábær engu að síður.