Minning – myndir af apótekum

Sumarið ’99 leigði ég herbergi hjá Stebba vini mínum. Hann var að vinna hjá Norræna félaginu og eitthvert kvöldið spurði hann hvort ég vildi ekki fara til Eystrasaltsins til að taka myndir af apótekum

Ég væri reyndar orðinn helstil gamall, en hann gæti reddað því

Það var engin leið að ég gæti hafnað þessu tilboði, svo ég fór í vinnuna og grenjaði út frí í sjö vikur

Þegar ég var kominn til Riga og mætti í fyrirtækið – útibú alþjóðlegs lyfjafyrirtækis – var mér úthlutað stafrænni myndavél og ungri aðstoðarkonu sem átti að fylgja mér við hvert fótmál og greiða mína götu í hvívetna.

Við gengum um götur Riga og á sirka 100 metra fresti var apótek. Ég tók myndir fyrir utan og svo fórum við inn. Aðstoðarkona mín kynnti okkur, við værum frá þessu mæta lyfjafyrirtæki og værum hér komin til að taka myndir af apótekinu. Við þetta veðruðust konurnar bak við borðið gjarnan upp. Þær afsökuðu sig, brugðu sér bakvið og penuðu sig aðeins til. Svo komu þær fram aftur og stilltu upp sínu fínasta pósi fyrir þennan ljósmyndara sem hlaut að vera fínn pappír fyrst hann var kominn alla leið frá útlöndum—með túlk!—til þess að taka af þeim myndir.


Tl;dr: Fór til Lettlands í sjö vikur til að taka myndir af apótekum

Þetta var því miður fyrir tíma snjallsíma og ég átti ekki stafræna myndavél sjálfur, svo engin á ég jarteikn um þessi ævintýr eða þessi apótek


Posted

in

by