Minning – vegabréf

Fór á lögreglustöðina við Hlemm að endurnýja vegabréf. Fékk lítið blað sem þurfti að fylla út – nafn, augnlit, hárlit, og ýmislegt fleira. Hæð.

Þarna var ég — óharðnaður ungur maður umkringdur þjónum réttvísinnar — og það hljóp einhver púki í mig.

Ég leit upp, svipaðist um. Það var enginn að horfa.

Ég bograði yfir blaðið, eins og til að forðast það að einhver ósýnilegur maður gæti horft yfir öxlina á mér.

Ég skrifaði 190 cm.

Ég hafði semsagt kvalist ógurlega yfir því að vera bara 189 cm, haft af því mikla minnimáttarkend því að mér fannst ég svo nálægt miklu fallegri tölu.

Síðan hef ég veifað þessu sem órækri sönnun þess að ég sé einmitt 190 cm, en ekki einhver 189 cm dvergur: Það stendur 190 cm í passanum!

Samt alltaf með óbragð í munni.

Þetta var fyrir óralöngu, sennilega var ég að endurnýja vegabréfið í fyrsta sinn. En ég hef aldrei gleymt þessu, þó enginn vissi.

Ég hef aldrei litið stórt á mig. Ég hef alltaf haldið mun ítarlegri lista yfir annmarka mína en kosti, og ósjaldan básúnað ótal lesti mína á torgum.

En þetta, þetta var svartur blettur á mannorði mínu. Ósýnilegur, en samt svartur. Svæsið dæmi um hégóma sem ég annars vildi ekkert kannast við.

Mér datt þetta semsagt í hug af því ég var í heilsufarsskoðun og skv. einhverri ógurlega fínni og flottri og nýmóðins græju var ég 190,9 cm.


twitter þráðurinn

Posted

in

by