Tóbías frændi leysir vandann
Daginn eftir að hafa endanlega losnað við Aum-Inga nafnið, kynntist Ingi dömu úr 2-E (sjálfur var hann í 2-C). Það var ást við fyrstu heyrn þegar hún heyrði í honum, tveimur plássum á undan sér í sjoppuröðinni, kvartandi valdsmannslega yfir því að hafa bara fengið bland í poka fyrir 719,50 kr., en hann bað um fyrir 723,80.
Hún ruddist fram í röðinni. Hún varð að berja manninn augum og ná af honum tali! Það leið næstum yfir hana! Vá!! Hvílíkt karlmenni! Hann náði vel upp á afgreiðsluborðið. Og klæðin! Skærgulur pollagallinn var tandurhreinn! Og… einstakt! Rauð Nokia stígvél!
“Þar fer maður með sambönd” rumdi í henni. Það er nú eða aldrei, Káta!
Hún hristi makkann og taldi í sig kjark.
“Lekker trefill” tókst henni loks að hósta út úr sér, og athygli hans var náð. Hann virti hana íbygginn fyrir sér og saug upp í nefið.
“Prjónað’ann sjálfur,” urraði hann með sömu óendanlegu svalheitunum og áður, “líka vettlinga í stíl. Sjáðu bara.”
Hún heyrði á andardrætti hans að tilfinningar hennar voru endurgoldnar. Hjarta hennar missti úr 7-8 slög, og hún hrundi í gólfið með háværu braki.
En hún jafnaði sig fljótt, og flýtti sér að bjóða honum út að borða.
“Sjor… hvert?” glotti hann sigurviss.
“Bæjarins bestu? Ég missti nefnilega vasapeninginn við að pissa undir um daginn.”
“Ókídók, beibí, þú borgar.” Hann henti í hana nafnspjaldi og sagði henni að sækja sig um 18:43.
Klukkan 18:42:50 bað hún leigubílsstjórann að hinkra eftir sér. Hún var svo spennt eftir að sjá hann að hún varð að taka 3 valíum í viðbót. Hann olli henni ekki vonbrigðum. Hann var kominn í sparigallann sinn, þennann með flottu endurskinsmerkjunum.
“Svo við verðum eins,” sagði hann um leið og hann henti í hana pakka. Í honum voru trefill og vettlingar í stíl við hans. Káta heyrði í kirkjuklukkum í fjarska, eða var þetta kannski vekjarinn hennar?
Þau klifruðu upp í leigubílinn.
“Í BÆINN! ÆTLARÐU AÐ SAFNA SKEGGI VIÐ ÞETTA, EÐA HVAÐ?” Öskraði hann svo illilega að grey bílstjórinn snökti það sem eftir lifði ferðarinnar.
Þegar niður á Bæjarins bestu kom, henti Káta fimmkalli í bílstjórann (sem sagði reyndar upp daginn eftir, en það er önnur saga; “Leigubílstjórinn segir upp”) og þau stukku út.
Biðröðin var löng, en daman hans Inga átti sko ekki að bíða í biðröðum út um hinar og þessar trissur. Hann henti litlum, heimatilbúnum, Mólótóv-kokteil í miðja röðina sem tvístraðist. Þá tók hann út klappstólinn og klöngraðist upp á hann.
“Tvær með öllu nema hráum!” gargaði hann í átt að lúgunni.
“En ég vil ekki sinnep,” hvíslaði Káta.
“Þegiðu kelling!” gelti hann til baka. Yndislegt! Þau höfðu bara þekkst í ca. 5:38 klst, en hann talaði strax eins og þau væru gift.
Leave a Reply