Tag: travel

  • Eins og skóli

    Keyrum framhjá Litla hrauni

    Pabbi: „Sérðu! Fangelsi!“

    Albert: „Þetta er alveg eins og skóli!“

    P: „Haaa? Er svona girðing þar?“

    A: „Í leikskólanum“


    Ekki í fyrsta skipti sem hann gerir þessa tengingu:

    Girðingin

  • Minning – myndir af apótekum

    Sumarið ’99 leigði ég herbergi hjá Stebba vini mínum. Hann var að vinna hjá Norræna félaginu og eitthvert kvöldið spurði hann hvort ég vildi ekki fara til Eystrasaltsins til að taka myndir af apótekum

    Ég væri reyndar orðinn helstil gamall, en hann gæti reddað því

    Það var engin leið að ég gæti hafnað þessu tilboði, svo ég fór í vinnuna og grenjaði út frí í sjö vikur

    Þegar ég var kominn til Riga og mætti í fyrirtækið – útibú alþjóðlegs lyfjafyrirtækis – var mér úthlutað stafrænni myndavél og ungri aðstoðarkonu sem átti að fylgja mér við hvert fótmál og greiða mína götu í hvívetna.

    Við gengum um götur Riga og á sirka 100 metra fresti var apótek. Ég tók myndir fyrir utan og svo fórum við inn. Aðstoðarkona mín kynnti okkur, við værum frá þessu mæta lyfjafyrirtæki og værum hér komin til að taka myndir af apótekinu. Við þetta veðruðust konurnar bak við borðið gjarnan upp. Þær afsökuðu sig, brugðu sér bakvið og penuðu sig aðeins til. Svo komu þær fram aftur og stilltu upp sínu fínasta pósi fyrir þennan ljósmyndara sem hlaut að vera fínn pappír fyrst hann var kominn alla leið frá útlöndum—með túlk!—til þess að taka af þeim myndir.


    Tl;dr: Fór til Lettlands í sjö vikur til að taka myndir af apótekum

    Þetta var því miður fyrir tíma snjallsíma og ég átti ekki stafræna myndavél sjálfur, svo engin á ég jarteikn um þessi ævintýr eða þessi apótek

  • Fermd

    Fermd

    Nothing else matters

    Í kvöld hlaut Sandra rokklega fermingu

    James, Kirk, Lars og Robert þjónuðu fyrir altari

  • Bomsur

    Eðlilegt fólk: Tásur á Tene

    Ég: Bomsur í Berlín

  • Beðið

  • Selsskógur

    Við fórum í útilegu í Selsskóg við Skorradalsvatn.

    Notuðum frítímann í að keyra um Borgarfjörð og leituðum að geocache

  • Kröfur

    Engin ástæða til að slaka á kröfunum þó maður sé í útilegu

  • Þegar þú sleppir því að taka með bjór í tjaldútileguna en þarft samt að fara út að pissa í 6 stiga hita kl 4 af því þú ert miðaldra

  • Minning: Kvikmyndahátíð

    Haustið 2000 var ég í hlutastarfi sem prófarkalesari á The Baltic Times í R?ga.

    Einn daginn á rölti um bæinn mætti ég kollega sem var á leið að sækja blaðamannapassa á kvikmyndahátíð. Ég rölti með og á leiðinni náði hún að magna upp í mér púka.

    Þegar við komum á staðinn laug ég því blákalt að aðstandendum kvikmyndahátíðarinnar Arsen?ls að ég væri frílans blaðamaður og að mig langaði mikið að skrifa grein um hátíðina í Moggann. Þau gleyptu við þessu og létu mig fá frípassa.

    Ég sá 36 myndir á 8 dögum. Þar af 25-30 myndir í fullri lengd:

    • Friðrik Þór sat fyrir svörum eftir Engla alheimsins og sagði öllum að á Íslandi væri hún álitin grínmynd.
    • Það hafði ekki gefist tími til að texta Dancer in the dark, svo aftast vinstra megin í salnum sat miðaldra maður við lítið borð með lampa og las þýðinguna jafnharðan í hljóðnema.
    • Ég sá Audition eftir Takashi Miike. Ég hafði aðeins misskilið lýsinguna í prógramminu og var engan veginn undir þetta búinn. Aleinn í bíó, kom svo út eftir miðnætti í kolniðamyrkur, og það var dágóður spotti heim. En semsagt já, ég svaf ekki mikið næstu daga, og mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds meðan ég skrifa þetta.

    Nema hvað, ég sá 36 myndir á 8 dögum. Tveimur dögum síðar var ég á kvöldvakt á blaðinu meðan starfsfólkið reyndi að fylla upp í síðustu dálksentimetrana svo hægt væri að senda blaðið í prentun. Ég fékk krampa í hálsinn vegna vöðvabólgu og vinnufélagarnir hringdu á sjúkrabíl sem flutti mig á Gai?ezers Slimn?ca (Svanavatns sjúkrahúsið).

    Þar lá ég í 3 daga með aðeins þennan farangur:

    • Stílabók og penna.
    • Nýjasta tölublað Baltic Times (sem ég hafði jú prófarkalesið af kostgæfni).
    • Eitt tölublað af The Economist.
    • Nokia 3110 með tvö strik, en ekkert hleðslutæki.

    Þegar hjúkrunarfræðingarnir komu að gefa mér lyf í æð reyndi ég á minni takmörkuðu lettnesku að spyrja hvað væri í gangi og það sem ég skildi var „meðal“ og „ekki illt“.

    Ég lá þarna uppi á áttundu hæð í þrjá daga, las Economist tólf sinnum, lúslas Baltic Times í leit að innsláttarvillum sem mér hefðu yfirsést, sendi svona 74 SMS, skrifaði háfleygar langlokur í stílabókina um hvað ég ætti ógurlega bágt og starði dreymandi út um gluggann.

    Við útskrift þremur dögum síðar fékk ég umslag sem innihélt röntgenmyndir af hálsinum, bréf um allt sem læknarnir höfðu gert (á lettnesku), óráðna greiningu og reikning upp á 59,78 LVL (samsvarar á að giska 25.875 ISK framreiknað). Ég fékk líka forláta hálskraga sem ég átti í mörg ár (og þurfti því miður að nota nokkrum sinnum).

    Tl;dr: Ég laug til að fá frípassa á kvikmyndahátíð og fór svo mikið í bíó að ég endaði á spítala í þrjá daga með GSM síma með tvö strik. Life lesson. Karma is a bitch. Stolnar piparkökur eru vondar. O.s.frv.